Um okkur

Sandra

Ég heiti Sandra og ég er fædd og uppalin i Þýskalandi. Ég flutti til Danmerkur þegar ég var 16 ára gömul. Hestar og hundar hafa alltaf verið miðpunktur lífs míns og ég hef eytt mestum tíma mínum með dýrunum. Sem barn kynntist ég dýrasjúkraþjálfun og aðferðum osteópata sem mér hefur allar götur síðan fundist mjög spennandi.

Þegar kom að því að velja mér leið í lífinu varð heilbrigðisgeirinn fljótt fyrir valinu. Manni var jú sagt að það eina rétta væri að læra eitthvað sem er viðurkennt af ríkinu og þar með tryggt starf. Ég þreyttist þó mjög fljótt á því starfi. Ég fór svo í annað nám og lærði sjúkraþjálfun fyrir hunda og hesta, og núna hefur osteópatía byggst ofan á. Ég er búin að læra í 5 ár í bæði Danmörku og Englandi, og er viðurkennd af European School of Osteopathy.

Fyrir mér er mikilvægt að halda þekkingu sinni og aðferðum alltaf við efnið og taka aldrei hlé frá því að vinna með það. Það er ótrúlega mikið að gerast innan fræðasvæðisins og maður getur fljótt fallið á eftir. Til að veita sem besta þjónustu fer ég reglulega á námskeið, málþing og alþjóðaráðstefnur (clinical professional development).

Ég hef mjög heildstæða nálgun á vinnuna mína vegna þess að allt tengist. Bæði sálarlífið, líkamsástand og umhverfið hafa áhrif á dýrin; og því er aldrei hægt að útiloka eitt frá öðru. Einnig legg ég mikla áherslu á samstarf við dýralækna, járningamenn og þjálfara til að ná sem bestum árangri.

Það sem mér finnst mikilvægt er að vinna fyrirbyggjandi og kenna fólki hvað þau geta gert sjálf. Því meira sem þú veist, því betra geturðu gert lífið fyrir dýrið þitt. Þess vegna finnst mér mikilvægt að kenna eigendum æfingar, gefa þeim smá af mínum skilningi um hvernig hlutirnir eru tengdir og hvað við getum gert til að halda dýrunum okkar við eins góða heilsu og mögulegt er með það sem við höfum stjórn á.

Hreinn Gunnar

Ég heiti Hreinn Gunnar og er fæddur og upp alinn í Njarðvík á Suðurnesjum. Fluttist svo til Reykjavíkur 10 ára gamall og svo í sveitina um 18 ára gamall. Hestarnir hafa alltaf loðað við hjá mér og fór ég í ófáa reiðtúrana með föður mínum á æskuárunum um Reykjanesið.

Sem ungur drengur horfði ég á föður minn og nágranna okkar járna saman hestana okkar og þeirra. Minnisstætt er þegar pabbi sagði við mig, örugglega átta ára gamlan, að það yrði nú góður dagur þegar ég gæti séð um járningarnar. Þá þyrfti hann ekki að brasast í þessu.

Þó nokkrum árum síðar prufaði ég að járna hest í fyrsta skipti undir handleiðslu Styrmis Sæmundssonar. Hann er einmitt sonur nágranna okkar sem pabbi járnaði með. En ekki leið á löngu þartil ég leitaði austur fyrir fjall og fann þar á endanum Erlend Árnason. Ég lærði vel og mikið af Ella og járnaði með honum um skeið.

Því næst lá leiðin til Danmerkur. Ævintýraþrá og aðrir þættir spiluðu þar inn í. Þar hitti ég Söndru árið 2020 og fannst okkur tími kominn til að ég lærði járningar hjá útlærðum fagmanni. Ég skráði mig í námið í Danmörku og gekk í læri hjá Steen Martinsen í 10 mánuði áður en við ákváðum að flytja aftur heim til Íslands. Á meðan ég var í læri lærði ég að smíða skeifur, glíma við helstu kvilla í hófum, sjá tengingar milli fótstöðu og mjúkvefsins í fótum hestsins og svo margt, margt fleira.

Ég keyri um með fullan bílinn af skeifum til helstu járninga, fylliefni og botna af ýmsum gerðum og öll helstu verkfæri til kaldra og heitra járninga.